Af hverju er svona
erfitt að breyta venjum?
Þessi spurning kom upp í síðasta Spurt & svarað með hópnum í námskeiðinu Frjáls frá sykurlöngun, og hún á svo sannarlega rétt á sér.

Við mannverurnar erum nefnilega vanafastar að eðlisfari. Mörg okkar framkvæma daglega hluti algjörlega á sjálfstýringu; við burstum tennurnar, keyrum sömu leið í vinnuna og grípum í eitthvað sætt án þess að hugsa mikið um það, sérstaklega ef það er í boði eða á venjulegum „sykurs tímum“ eins og eftir hádegismat eða á kvöldin.
Vandinn er sá að þegar við viljum breyta einhverju sem hefur orðið að sjálfvirkri venju, eins og að borða sætindi þá þurfum við tímabundið að taka meðvitaðar ákvarðanir. Við verðum að stíga út úr vananum og taka stjórn meðvitað.
Hugsaðu þetta eins og að hætta í vinnunni og byrja í nýrri. Þú getur ekki keyrt sömu leið og áður, þú þarft að muna nýja leiðina, vera vakandi og einbeitt(ur). Sama á við um matarvenjur. Þegar þú ákveður að minnka sætindaneyslu, þá krefst það meðvitaðrar orku. Heilinn er ekki vanur að leggja þessa vinnu á sig, því þetta var áður sjálfvirkt.
En að hætta að borða sætindi eða minnka þau getur verið miklu meira krefjandi en að byrja að keyra nýja leið í vinnuna. Því þessi hegðun tengist oft tilfinningum, þreytu, streitu, kvíða, vana, umbun og jafnvel sjálfsmynd. Þess vegna getur verið nauðsynlegt að fá réttu verkfærin, stuðning og fræðslu til að ná raunverulegum og varanlegum breytingum, eins og við erum að vinna með í þessu námskeiði.
Góðu fréttirnar eru að nýjar venjur geta líka orðið sjálfvirkar, alveg eins og gömlu venjurnar. Nýja leiðin í vinnuna verður að nýju sjálfvirku leiðinni. Og að sleppa súkkulaðinu á kvöldin getur smám saman orðið venja sem krefst ekki hugsunar.
Þegar sú breyting hefur fest sig í sessi, hættir þú að taka eftir sykrinum í kringum þig. Þér er sama þó aðrir fái sér, því þú ert búin að styrkja nýja venju sem styður þig.
Meira blogg
Meira blogg