Mín saga -
af hverju næring?

Mig langar að deila minni sögu með þér af hverju ég brenn fyrir því að hjálpa fólki að ná betri stjórn á sykurlöngun og finna jafnvægi í mataræðinu.

15.3.2025

Þegar ég var 9 og 11 ára fór ég í utanlandsferðir með ömmu og afa. Þau reyndu sitt besta til að hafa nóg fyrir mig að gera, en vissu stundum ekki alveg hvernig átti að skemmta mér endalaust. Oft endaði það með því að ég fékk mikið af frönskum, ís og sælgæti. Ég hafði einfaldlega ekki lært að hlusta á líkama minn eða skilja hvernig matur hefur áhrif á líðan mína.

Þegar ég varð fullorðin þróaðist þessi venja áfram. Ég greip oft í óhollan mat þegar mér leiddist, þegar ég var þreytt eða stressuð. Þetta var orðin mín leið til að dreifa huganum, líða betur og verðlauna mig. Ég veit að margir kannast við þessa hegðun og það er einmitt það sem mig langar að hjálpa með.

Ég ákvað að fara í næringarfræðinám til að skilja betur hvernig matur getur unnið með okkur, ekki á móti okkur og hvernig við getum fengið sem mesta næringu úr honum. Fyrir 12 árum var ég komin í tæplega 100 kg og reyndi hvað ég gat til að grennast. Það gekk illa, líkaminn minn var í hálfgerðu jójóhringrás í 5 ár. En fyrir um 7-8 árum, þá byrjaði ég smám saman að nýta næringarríkan mat og hreyfingu í stað sætinda, óhollustu og skyndibita. Þannig tókst mér að léttast um 40 kg á 5 árum jafnt og þétt. Ég lærði að skyndilausnir virka bara alls ekki og besta leiðin fyrir mig var að gera þetta sem maraþon, ekki sprett. Það var ekki auðvelt en það var mögulegt.

Þess vegna býð ég upp á námskeið og leiðbeini fólki í átt að því að finna jafnvægi í mataræðinu, án þess að banna mat eða grípa til öfgakenndra lausna.

Ef þú tengir við þetta, þá langar mig að bjóða þér að fylgjast með mér. Ég mun deila fleiri ráðum, hagnýtum lausnum og tækjum sem gætu hjálpað þér á þinni vegferð.

Meira blogg



Meira blogg