Spínat

30.06.2014 - Hrund Valgeirsdóttir

Spínat hefur aukist í vinsældum á Íslandi undanfarið og það eru mjög góðar fréttir. Það getur verið sniðugt að nota spínat í til dæmis búst og safa, salöt, samlokur og fleira.  Hægt er að borða spínatið til dæmis ferskt, gufusoðið eða soðið. Bragð spínatsins breytist og verður aðeins sætara við það að sjóða það. Þannig að það getur verið sniðugt að breyta til og matreiða það á mismunandi vegu.

Helsti kostur spínats eru andoxunarefnin sem það inniheldur. Það er ríkt af A- (beta-karótíni), C- og K-vítamínum, B1-, B2- og B6-vítamínum, fólati, kalki, magnesíum og trefjum. Spínat inniheldur líka talsvert af járni en því miður er mjög erfitt fyrir líkamann að frásoga það járn.

Það sem meðal annars eykur frásog járnsins er C-vítamín og efni sem finnst í kjöti, fuglakjöti og fiski. En það sem minnkar frásogið, eru meðal annars trefjar, kalk og fosfór sem spínatið er allt ríkt af. Sumar rannsóknir gefa til kynna að frásog járnsins sé svona lítið í spínati vegna oxalata sem það inniheldur og bindur járnið og hindrar þannig frásog þess. En það er talið hindra einnig frásog kalksins í spínatinu. Þetta þýðir að til að nýta járnið betur er gott að borða spínat með kjöti eða fisk, eða setja í safa eða salöt sem innihalda C-vítamín ríka ávexti eins og til dæmis ananas, mangó eða appelsínur.

Vísbendingar benda til þess að neysla á spínati geti minnkað líkur á sumum tegundum krabbameina, æðakölkun og hás blóðþrýstings. Spínat neysla hjálpar líka til með beinheilsuna og án efa óteljandi fleiri heilsuþátta sem tengjast öllum þeim næringarefnum sem það inniheldur.

Þannig endilega borðið spínat frekar en blaðsalat því það er miklu næringarríkara. Hér eru nokkrar hugmyndir sem er sniðugt að nota spínat í

  • Setja í búst eða safa
  • Nota í salöt
  • Gera Spínat Lasagna
  • Nota sem álegg í samlokur eða brauð
  • Setja í vefjur
  • Setja í omellettur
  • Nota ferskt sem meðlæti
  • ....







Pistlar