Ávextir og grænmeti

21.04.2012 - Hrund Valgeirsdóttir

Ráðleggingar
Ráðleggingar frá Lýðheilsustöð mæla með að borða 5 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag sem samsvarar um það bil 500 grömmum. Ráðlagt er að minnsta kosti 200 grömm komi frá ávöxtum, 200 grömm frá grænmeti og 100 grömm í mesta lagi frá hreinum söfum.

Mataræði Íslendinga
Landskönnun á mataræði 2010/2011 sýnir að meðalneysla ávaxta er 119 grömm á dag og meðalneysla grænmetis er 120 grömm á dag sem er mun lægri en ráðleggingar segja til um þrátt fyrir að neyslan hafi aukist talsvert frá því að síðasta könnun var gerð árið 2002. Meðalneysla barna og unglinga er einnig mun lægri en ráðleggingar segja til um. Þannig að við Íslendingar, bæði fullorðnir og börn mættum standa okkur mun betur þegar kemur að ávaxta- og grænmetisneyslu!

Vernd gegn sjúkdómum
Það er ekki að ástæðulausu að þessar ráðleggingar eru gefnar, en lág ávaxta- og grænmetisneysla er meðal tíu helstu áhættuþátta fyrir dánartíðni. Einnig hefur aukin neysla verið tengd við lækkaða áhættu á hjarta- og æðasjúkdóma, heilablóðfalli, sykursýki af gerð 2, ýmsum tegundum krabbameina ásamt offitu.

Innihald ávaxta og grænmetis
Ástæðan fyrir því að ávextir og grænmeti geta haft þessi áhrif er næringarinnihald þeirra. Ávextir og ber eru rík af trefjum, C- og E- vítamíni, fólati og magnesíum. Grænmeti er sömuleiðis ríkt af trefjum, C- og E-vítamíni og fólati, og einnig A-vítamíni og kalíum. Þessi vítamín og steinefni ásamt öðrum lífvirkum efnum sem eru til staðar í ávöxtum og grænmeti innihalda andoxunarefni, flavenóíða, karótenóíða, plöntuestrogen og önnur plöntuefni sem vernda okkur gegn sjúkdómum. Samspil þessara efna er einnig verndandi.

Mjög gott er að borða fjölbreytt úrval af ávöxtum og grænmeti því áhrif þessara efna í töfluformi eru ekki talin hafa jafn góð áhrif og maturinn sjálfur.







Pistlar