Þyngdartapsráð #1 - Virka megrunarkúrar?

08.06.2014 - Hrund Valgeirsdóttir

Það hefur verið mikið rannsakað hvort megrunarkúrar virki eða virki ekki. Flestar niðustöður sýna að megrunarkúrar séu ekki besta leiðin til að léttast og halda þyngdinni í skefjum. Yfirleitt fylgir þeim loforð um að léttast fljótlega og flestir kúrar hjálpa fólki að léttast til að byrja með. En það er yfirleitt mjög erfitt að fylgja svona boðum og bönnum sem fylgja svona kúrum. Flestir verða þreyttir á því, gefast upp og þyngjast aftur um þá þyngd sem var farin og jafnvel eitthvað meira til.

Fyrir utan það að megrunarkúrar virki ekki til langs tíma, þá geta þeir verið mjög óheilbrigðir. Þeir innihalda ekki þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Einnig eykur það líkurnar á gallsteinum að léttast um meira en 1,5 kg á viku. Og ef borðað er minna en 800 hitaeiningar á dag í langan tíma, þá getur það leitt til hjartavandamála.

Rannsóknir benda til að örugg leið til að léttast sé að borða færri hitaeiningar, hreyfa sig meira og halda þyngdartapinu í 0,2-1 kg á viku. Einnig skiptir mjög miklu máli að velja hollan mat, borða minni skammta og hreyfa sig daglega. Þegar þessar venjur hafa orðið að lífsstíl er auðveldara að halda þyngdinni í skefjum. Þessar venjur geta líka lækkað líkurnar á því að þróa hjartasjúkdóma, háþrýsting og sykursýki 2.







Pistlar