Heilsuráð #1 - Val á drykkjarmjólk

01.05.2012 - Hrund Valgeirsdóttir

Á næstunni munu birtast hérna nokkur mjög einföld heilsuráð sem er gott að fylgja eftir. Sumum finnst kannski sum ráðin sjálfsögð og augljós, og hafa jafnvel lifað eftir þeim árum saman á meðan öðrum gæti fundist bókstaflega erfitt að fara eftir þeim. En allt byggist þetta á því að lifa heilsusamlegra lífi og velja heilsusamlegustu kostina. Smáar breytingar verða að stórum og því er gott stundum að staldra við og íhuga hvaða litlu breytingar hægt er að gera á einfaldan hátt. Val á matvörum byggist mikið til af vana og allar breytingar geta tekið smá tíma.

Fyrsta heilsuráðið byggir á því að velja fituminni mjólk eins og Léttmjólk, Fjörmjólk eða Undanrennu í stað Nýmjólkur.Ráðleggingar Lýðheilsustöðvar mæla með tveimur mjólkurskömmtum á dag af fitulitlum og sykurskertum mjólkurvörum fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Þetta á við allar mjólkurvörur eins og osta, skyr, jógúrt, drykkjarmjólk og fleira.

Aðalástæðan fyrir því að velja fituminni drykkjarmjólk er vegna þess að hún inniheldur mun minna magn af mettuðum fitusýrum eins og sést í töflunni hér fyrir neðan. Kalkmesta mjólkin af þessum fjórum er svo fjörmjólkin og sú með mesta D-vítamínið er vítamínbætta Léttmjólkin sem er nýkomin á markað. Þannig að Fjörmjólkin og D-vítamínbætta Léttmjólkin eru báðar mjög góður kostur ef þið yfirhöfuð notið drykkjarmjólk.

Eitt glas (250 ml) Orka (kkal)   Prótein (g)   Fita (g)   Mettaðar fitusýrur (g)   Kalk (mg)   D-vítamín (μg)  
Undanrenna 85 8,75 0,25 0,15 295 0
Fjörmjólk 98 11 0,75 0,45 353 0,95
Léttmjólk 113 8,5 3,75 2,2 285 0,025
Léttmjólk (D-vítamínbætt)   113 8,5 3,75 2,2 285 2,5
Nýmjólk 168 8,5 9,75 5,9 285 0,075







Pistlar